Gúrkuplantan, Cucumis sativus, er einær jurt úr graskersættinni (Cucurbitaceae). Af gúrkum eru einkum tvö afbrigði í ræktun, annars vegar hefðbundnar gúrkur og hins vegar þrúgugúrkur. Ræktun hefðbundinna gúrkna hér á landi hefst upp úr 1925 og eru nú ræktaðar gúrkur árið um kring.
Þegar ræktað er árið um kring með lýsingu (220 W/m2) er plantað út allt að 5 sinnum á ári, en í hefðbundinni ræktun er plantað 2 sinnum, í febrúar og í maí – júní.
Gúrkur eru ræktaðar í vikri, steinull eða torfi/jarðvegi og best er að fræjunum sé sáð í sama efni og ræktunin fer fram í. Sáningin fer fram við hátt hitastig (25°C ) og spírunin gengur hratt fyrir sig eða ca 2 sólarhringar. Plönturnar eru síðan hafðar í uppeldi með fullri lýsingu í allt að 3 vikur en þá er þeim plantað út í gróðurhús.
Góðar og heilbrigðar gúrkur geymast í rúma viku án þess að dragi úr gæðum ef aðstæður í geymslunni eru réttar, en fljótt getur dregið úr geymsluþoli ef svo er ekki.
Gúrkur má nota í flestar gerðir af salati, sem álegg ofan á brauð og til að skreyta kalda og heita rétti. Þær má skera í teninga og blanda saman við rækjusalat, kjúklingasalat, ítalskt salat og fleira. Mörgu smáfólkinu finnst líka gott að fá gúrkur sem hollt snarl milli mála. Einnig eru gúrkur góðar með pastaréttum; skerið þær í þunnar sneiðar, stráið salti yfir sem skolað er af og hellið ítalskri salatsósu yfir. Notið gúrkur í fiskrétti og ýmsa heita grænmetisrétti.
Já, hægt er að frysta gúrku, en hún verður mjúk og vatnssósa. Því er best að skera hana í þunnar sneiðar og frysta (án þess að hita þær áður). Hins vegar er langbest að borða gúrkuna ferska.
Af gúrkunni má borða allt. Umfram allt á að borða hýðið, í því er næringargildi gúrkunnar einkum fólgið.
Ætur hluti 95 %
|
|
Innihald í 100 g |
|
Vatn 96 g
|
|
Orkurík efnasambönd |
|
Prótein 0.8 g
|
Trefjar 0.4 g
|
Kolvetni 2.7 g
|
Fita 0.1 g
|
kj 63
|
kcal 15
|
Steinefni |
|
Járn 0.4 mg
|
Kalk15 mg
|
Vítamín |
|
A Ret. ein 36 µg
|
B1 0.02 mg
|
B2 0.02 mg
|
Niacin 0.2 mg
|
C (askorbínsýra) 8mg
|
Gúrkur eru „grennandi“, en aðeins eru 12 hitaeiningar í 100 g. Þær eru að 96 hundraðshlutum vatn þannig að þurrefni er aðeins um 4%, því er í raun meira þurrefni í einni gosflösku en einni gúrku. Næringargildið er lágt, en í gúrkum eru A-, B- og C-vítamín auk nokkurs af kalki og járni.