Friðheimar

Helena og Knútur

Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eru bæði uppalin í Reykjavík en fluttu upp í sveit þegar þau voru 25 ára að aldri. Þá keyptu þau Friðheima í Reykholti, garðyrkjustöð sem stofnuð var 1946 og var rekin með myndarskap á árum áður en hafði verið í eyði í nokkur ár og var því tilvalin fyrir ungt fólk til að hefja búskap og þannig sameina ástríðu sína fyrir garðyrkju og hrossarækt. 

Upphaflega ræktuðu Knútur og Helena tómata, paprikur og gúrkur en árið 2002 settu þau upp lýsingu í gróðurhúsin og ákváðu að sérhæfa sig í tómatarækt. Með uppbyggingu á gróðurhúsunum vildu þau auka úrvalið á tómötum sem fást hér á landi og í dag rækta þau fjórar tegundir af tómötum; hefðbundna tómata, plómutómata, Heirloom-tómata og Piccolotómata. Þau eru einu garðyrkjubændurnir á Íslandi sem rækta Piccolotómata. 

Gróðurhúsin á Friðheimum þekja um 11.000 fermetra upplýst í heilsársræktun, og eru að meðaltali tvö tonn af tómötum send á markað á hverjum degi. Ræktunin er vistvæn og eru gróðurhúsin hituð upp með jarðhita og lífrænar varnir notaðar gegn meindýrum. Auk þess er nýjasta tækni nýtt til stýringar. Tómatarnir eru flokkaðir og þeim pakkað á staðnum og merktir Friðheimum áður en þeir eru sendir á markað.  

Knútur og Helena opnuðu býlið fyrir ferðamönnum árið 2008 til að kynna séreinkenni íslenska hestsins fyrir gestum, sem og ylræktina sem byggir á gjöfum náttúrunnar og hátækni sem gaman er að sjá og upplifa. Í gróðurhúsunum er einnig boðið upp á matarupplifun þar sem gestirnir sitja inni á milli plantnanna og gæða sér á ýmsum kræsingum þar sem tómatarnir leika aðalhlutverk, eins og til dæmis þeirra rómaða tómatsúpa, tómatís og tómatbjór. Með þessu er öll uppskeran nýtt, þar sem ekki allir tómatar komast á markað sem fyrsti flokkur vegna útlitsgalla. Auk þess rækta þau ýmsar tegundir af grænmeti, til að mynda kryddjurtir, salat, gúrkur og ýmsar tegundir tómata fyrir veitingastaðinn og Litlu tómatbúðina á Friðheimum. Þar eru til sölu ýmsar heimagerðar vörur sem bjóða gestum upp á þann möguleika að taka bragðið með sér heim og njóta.

Friðheimar eru fjölskyldufyrirtæki og starfa þar rúmlega 50 heilsársstarfsmenn

Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Friðheima www.fridheimar.is

Staðsetning: Reykholt
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur