Umbúðir

Íslensku grænmeti er aldrei pakkað inn að óþörfu. Tilgangurinn með umbúðunum er fyrst og fremst tvíþættur, annars vegar rekjanleiki og hins vegar að draga úr matarsóun.

Rekjanleiki
Íslenskir neytendur vilja vita hvaðan grænmetið þeirra kemur. Upprunamerking skiptir öllu fyrir þau okkar sem kjósa matvæli úr næstu sveit og kunna best við að kaupa vöruna beint frá bónda.

Minni matarsóun
Góðar umbúðir koma í veg fyrir rýrnun við geymslu og flutninga. Áður en við byrjuðum að pakka grænmetinu okkar inn mátti búast við allt að 25% rýrnun afurðanna í sölu. Eftir að umbúðirnar komu til sögunnar er rýrnunin komin niður fyrir 3%. Pakkningarnar eru því mikilvægur liður í baráttu okkar gegn matarsóun. Eftir sem áður höldum við áfram að leita uppi umhverfisvænni umbúðir til að draga úr plastnotkun.

Milljón fjölnota kassar
Á hverju ári þrífum við og sótthreinsum um milljón grænmetiskassa  með jónuðu vatni til að komast hjá því að nota hreinsiefni sem annars færu beint út í frárennslið. Þessi einfalda aðferð, að nota sömu kassana aftur og aftur, er snjöll leið til að draga úr umbúðasóun.

Endurvinnsla
Fyrir rúmum áratug hættum við notkun á frauðplasi og plastbökkum og tókum upp bakka úr endurvinnanlegum pappa í staðinn. Næsta skref í átt að umhverfisvænni umbúðalausnum er að pakka kartöflum í bréfpoka sem mun draga enn meira úr plastnotkun.

Meðvitaðir neytendur
Neytendur sem velja íslenskt grænmeti eru meðvitaðir um umhverfið og taka vel í hvatningu okkar um að flokka umbúðir til endurvinnslu. Við vitum að íslenskir neytendur sætta sig ekki við óþarfar umbúðir.

Gerum gott betur
Ætla má að með þeim skrefum sem við höfum tekið á undanförnum árum þá hafi okkur tekist að draga úr plastnotkun um 60-65% en verkefninu er hvergi nærri lokið. Okkar markmið er að umbúðir okkar verði að fullu lausar við plast þegar upp er staðið.