Forsæti IV

Anna og Kristján

Hjónin Kristján Gestsson og Anna Guðbergsdóttir eru kartöflubændur á bænum Forsæti IV í Flóahreppi og hafa þau stundað þann búskap frá árinu 1970. Kartöflur hafa þó verið ræktaðar á jörðinni í rúmlega hálfa öld en foreldrar Kristjáns, þau Gestur Mosdal Kristjánsson og Helga Kristín Þórarinsdóttir hófu ræktunina um 1960. Garðyrkjubýlið hefur yfir góðum tækjakosti að ráða, sem gerir þeim hjónum kleift að vinna að mestu leyti ein við framleiðsluna.

Útsæðið sem sett er niður ár hvert er að hluta til heimaræktað en kartöfluheilbrigði er þó haldið við með aðkeyptu stofnútsæði. Útsæðið er látið forspíra og sett niður í lok apríl og fram yfir miðjan maí. Uppskeran er að miklu leyti háð veðurfari og getur því verið mjög breytileg á milli ára. Ræktunarsvæðið er 20 hektarar.

Á Forsæti er stunduð skiptirækt með byggi til að halda jarðveginum frjóum og góðum. Bygginu er sáð til helminga við kartöflurnar. Þannig vaxa kartöflur þar sem byggi var sáð árið áður og öfugt, alltaf til skiptis. Byggið þreskja svo kúabændur í nærsveitum og nýta í fóður.

Mikilvægt er að þær kartöflur sem teknar eru upp á haustin séu geymdar í kæligeymslum við réttan hita og rétt rakastig. Með því móti er auðveldlega hægt að halda vörunni ferskri fram að næstu uppskeru. Kartöflurnar eru geymdar óhreinsaðar í kæligeymslunni yfir veturinn en áður en þær eru sendar á markað eru þær flokkaðar og þvegnar.

Vinsælustu tegundirnar eru íslensku afbrigðin Gullauga og Rauðar og er því mest ræktað af þeim. Fleiri tegundir eru þó ræktaðar á býlinu og má sem dæmi nefna Premiere og Milva.

Staðsetning: Flóahreppur
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur