Tómatar á grein

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið
Tómatar eru  ræktaðir með lýsingu allt árið. Framleiðendur eru með stöðuga ræktun þannig að eyður myndast aldrei í framleiðslunni. Þeir planta ungum plöntum inn á milli gömlu plantnanna og fjarlægja síðan þær gömlu þegar aldinin hafa þroskast á þeim og þá eru nýju plönturnar byrjaðar að gefa ávöxt.

Þar sem lýsing er ekki í gróðurhúsum er tómötum sáð í lok desember eða í byrjun janúar. Við sáningu er hitastiginu haldið um 25°C en síðan lækkað í uppeldinu í 22°C.

Smáplöntunum er pottað í stærri potta og settar undir ljós og eru þar fram í miðjan febrúar eða þar til fyrsti blómklasinn blómgast en á því stigi er plöntunum plantað út í gróðurhús. Plantað um 2,5 plöntum á m2 og er plantað í jarðveginn í húsunum en einnig er ræktað í takmörkuðu rými, í vikri, torfi eða steinull.

Plöntunum er gefin næring í vökvuninni. Þær eru bundnar upp í víra sem eru í um 3 m hæð frá gólfi, þannig að þær vaxi beint upp.  Hunangsflugur sjá svo um að frjóvga plönturnar.

Venjulega byrjar plantan að gefa (tómatarnir byrja að roðna) þegar 8 – 9 blómklasar eru komnir. Tómatarnir eru tíndir 3 daga í viku en plönturnar lagðar niður, vafðar upp og afblaðaðar hina dagana. Í byrjun nóvember er dagsbirtan orðin það lítil að plönturnar ná ekki að vaxa án lýsingar, því er toppurinn tekinn af þeim í september byrjun til að nývöxturinn stöðvist og þær geti nýtt takmarkaða birtuna til að þroska aldinin.

Geymsla

Tómatar eru ákaflega viðkvæmir fyrir kæliskemmdum og þá má ekki geyma í kæli. Besti geymsluhiti tómata er 10-12°C. Tómatar sem verða fyrir kæliskemmdum verða fljótt linir og bragðlitlir, því er ekki gott að geyma þá í ísskápnum. Ekki er gott að láta tómata liggja nálægt blaðmeti (salati), gúrkum og öðrum afurðum. Mjög gott er að geyma tómata á eldhúsborðinu því þá getur heimilisfólkið nartað í einn og einn tómat. Krakkar borða grænmeti líka miklu frekar ef það er haft fyrir framan þau.

Notkun

Flestir vita hvernig nota á tómata, þá má nota á svo margvíslegan hátt að hér er vart rými nema til að minnast á það allra helsta. Þeir henta vel í hrásalat, ofan á brauð og í súpur og sósur. Þeir eru góður hráir en einnig má sjóða þá og steikja eða baka þá með fyllingu.

Margir kunna að meta tómata í ítölsku hrásalati með söxuðum lauk og gúrkusneiðum í estragonediki sem graslauk er stráð yfir. Auðvelt er að afhýða þá þegar búið er að dýfa þeim í sjóðandi vatn í 20-30 sekúndur. Hægt er að sjóða niður græna tómata.

Má frysta tómata?

Já, en hafa verður í huga að eftir frystingu er einungis gott að nota þá í soðna rétti á sama hátt og niðursoðna tómata.

Hvaða hluta er hægt að borða?

Allur tómaturinn er ætur nema bikarblöðin sem er ávallt búið að taka af íslenskum tómötum áður en þeir koma í verslanir.

Sjá nánar ljúffengar tómatauppskriftir hér:

 

Innihald í 100 g Vatn 94 g
Næringargildi í 100 g
Orka 74 kj
17 kcal
Fita 0,3 g
Þar af mettuð 0 g
Kolvetni 2,1 g
Þar af sykurtegundir 2,1 g
Trefjar 1,8 g
Prótein 0,8 g
Salt 0 g
NV*
C vítamín15,8 mg20%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Tómatar eru vítamínríkir, einkum er mikið af A- og C-vítamíni í þeim, en auk þess eru þeir ríkir af steinefnum og ávaxtasýru.
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur