Reykjabakki

Einar

Flúðir í Hrunamannahreppi eru ákjósanlegt svæði til útiræktar á grænmeti en sérlega veðursælt er á svæðinu. Einar Jónsson ræktar þar bæði hvítkál og rauðkál en hann hóf grænmetisræktun árið 1982.

Kálið ræktar Einar frá fræi fyrst um sinn í gróðurhúsum. Það þarf að vökva daglega þegar plöntunni er komið til en eftir að hún hefur rótað sig á endanlegum stað sér náttúran um meiripart erfiðisins. Kálið er þó haft undir dúk fyrripart sumars til að vernda það frá veðri og vindum. Auk þess veitir dúkurinn góðan yl. Þegar kemur að uppskeru þarf að gæta að því að veður sé gott svo kálið haldi gæðum sínum sem lengst. Einar vinnur mest einn í kálræktinni en fær þó aðstoð þegar kemur að því að setja niður.

Einar ræktar tvær gerðir af bæði hvítkáli og rauðkáli. Fyrri part sumars ræktar hann svokallað sumarkál sem er lausara í sér en haustkálið, oft nefnt geymslukál þar sem það geymist betur en sumarkálið. Fyrsta uppskera af sumarkáli er yfirleitt í júlíbyrjun svo tekur haustkálið við. Það er tekið upp fram í byrjun september.

Einar lumar á góðu ráði til að halda kálinu fersku í lengri tíma í kæliskápnum jafnvel svo mánuðum skiptir, það er að skera ekki af kálhausnum með hníf heldur rífa blöðin utan af eftir þörfum. Saxa blöðin niður eftir á ef ætlunin er að fá kálið í strimla eða nota þau heil ef kálbögglar eru á matseðlinum.

 

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur