Dísukot

Sigrún og Óskar

Óskar Kristinsson og Sigrún Björk Leifsdóttir rækta kartöflur í Þykkvabænum. Óskar ólst upp í Dísukoti í Þykkvabæ þar sem foreldrar hans ræktuðu kartöflur og héldu kýr. Sigrún er líka ættuð af Suðurlandinu en ólst upp í sveit undir Eyjafjöllum. Þar var hefðbundinn blandaður búskapur; sauðfé, hestar og kýr. Kartöflurækt var líka stunduð þar um tíma.

Óskar kom inn kartöfluræktina með foreldrum sínum árið 1986 en hefur líka stundað bæði smíðar og verið til sjós.
Saman rækta Sigrún og Óskar kartöflur á um 24 hekturum lands í Þykkvabænum og uppskera 450 til 500 tonn af kartöflum á ári. Hjónin standa að mestu ein í ræktuninni en fá aðstoð við upptökuna á haustin. Allar kartöflurnar eru teknar upp með vélum í stóra sekki og geymdar við kjöraðstæður þangað til þær fara á markað. Þá eru þær þvegnar og flokkaðar svo neytendur fái sem ferskasta vöru.

Til að hvíla jörðina og auka frjósemi er stunduð skiptirækt með korni. Það þýðir að annað hvert ár eru ræktaðar kartöflur og árið eftir er ræktað þar bygg og svo koll af kolli. Óskar og Sigrún sjá um að þreskja kornið sem er svo nýtt í fóður fyrir nautgripi í sveitinni.

 

 

Staðsetning: Þykkvibær
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur