Auðsholt
Ásdís og Vignir
Hjónin Vignir Jónsson og Ásdís Bjarnadóttir stunda kúabúskap í Auðsholti í Hrunamannahreppi. Árið 1997 hófu þau að rækta gulrætur ásamt kúabúskapnum og framleiða nú í kringum 100 tonn á ári.
Gulræturnar rækta þau í sendnum jarðvegi á bökkum Hvítár sem er hitaður upp með heitu vatni úr borholu. Búfjáráburður er uppistaðan í áburðinum á gulræturnar og ræktunin því vistvæn. Uppskeran er tekin upp í lok júlí. Gulræturnar eru síðan geymdar ferskar í kæli frá september og yfir veturinn en þá fer fram mesta vinnan við að flokka og pakka.
Fjölskylda Vignis og Ásdísar vinnur saman við ræktunina og þegar mest er að gera og mikið liggur við, eins og á uppskerutímanum, segir Vignir stórfjölskylduna kallaða til. Kröfur íslenskra neytenda um gæði eru miklar og segir Vignir fjölskylduna leggja allt kapp á að uppfylla þær. Mikil vinna liggur að baki hverri gulrót. Uppskeran er tekin upp með vélum og gulræturnar þvegnar. Hver gulrót er svo snyrt í höndunum, þær síðan flokkaðar og þeim pakkað til neytenda. Frá Auðsholti fara sendingar tvisvar í viku. Í apríl er svo næstu uppskeru sáð.