Grafarbakki

Elín og Óskar

Á garðyrkjustöðinni Grafarbakka rækta hjónin Elín Hannibalsdóttir og Óskar Rafn Emilsson hinar ýmsu grænmetistegundir á um þremur hekturum lands. Þau hjónin tóku við ræktuninni af foreldrum Óskars árið 2018.

Áður höfðu þau verið í félagsbúskap við foreldra Óskars frá árinu 2013 en fjölskyldan hefur ræktað grænmeti á Grafarbakka frá 1944. Foreldar Óskars, Lilja og Emil tóku við ræktuninni 1975 af foreldrum Emils. Fyrst voru ræktaðar kartöflur en síðar var farið í aðra grænmetisrækt. Meðal annars rækta þau; hvítkál, rófur, rauðrófur, spergilkál og blómkál.

Aðal uppskeran er þó gulrætur, allt að tuttugu og fimm tonn. Mest af hefðbundnum appelsínugulum gulrótum en einnig Regnbogagulrætur; fjólubláar, gular og hvítar gulrætur. Reyndar má segja að Regnbogagulrætur séu hinar hefðbundnu gulrætur því gulrætur voru einmitt marglitar frá náttúrunnar hendi í upphafi en ekki jafn appelsínugular og nú þekkist.

Sérstaða ræktunar á Grafarbakka er sú að á um hektara lands er ræktað í heitum jarðvegi og hefur verið gert síðan 1944. Það þýðir að hægt er að uppskera gulrætur um miðjan júlí og í sérlega góðu árferði í upphafi júlí. Heitt vatn úr hverum í nágrenninu er notað til að vökva garðana. Vatnið er rétt um þrjátíu gráðu heitt og hentar sérlega vel til grænmetisræktunar. Á haustin, um mánaðamótin ágúst/september hefst  uppskerutíminn fyrir það grænmeti sem sáð var í hefðbundnum köldum görðum.

Öllu grænmeti er pakkað á staðnum og á uppskerutímanum fer sending alla virka daga til neytenda.

 

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur