Emmson Sveppir

Magnús

Í efri byggðum Kópavogs, rétt við Elliðaárvatn, ræktar Magnús Magnússon ostrusveppi. Magnús hefur meðal annars starfað sem kvikmyndagerðamaður, húsasmíðameistari og sjómaður. Árið 2016 fór hann að svipast um eftir nýjum áskorunum í starfi og kynnti sér sveppaframleiðslu í Hollandi þar sem svepparækt fer ört stækkandi. Þar sem hann er mikill náttúruverndarmaður sá hann mikla möguleika í því að framleiða lúxusmatvörur úr áður notuðum hráefnum sem samræmist hugmyndum hringrásarhagkerfisins og markmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Sveppina ræktar Magnús aðallega í blöndu af kaffikorgi og kaffihismi sem fellur til hjá fyrirtækjum. Íslandsbanki, Mannvit, Kaffitár og ON eru samstarfsaðilar og endurvinna þannig korg sem fellur til í kaffivélum fyrirtækjanna. Sveppirnir eru ræktaðir í gömlum aflögðum 40 feta flutningagámi og ferlið því mjög umhverfis- og náttúruvænt.

Það tekur um 25 daga að rækta ostrusveppi frá því að kaffikorgurinn er smitaður með sveppamísli þangað til hann er tilbúinn. Fyrstu dagana fer ræktunin fram í súrefnissnauðu og myrku umhverfi en eftir að sveppirnir taka að stækka er kveikt á dagljósaperum í gámnum auk þess sem súrefni er aukið til muna. Rakinn í rýminu er þá settur í nálægt 80-90% með aðstoð ultrasonictækninnar. Sú tækni framleiðir rakamistur með hátíðni.

Þó svo að sveppirnir frá Emmson Sveppum fáist að sinni ekki í neytendaumbúðum í verslunum eru þeir sérlega vinsælir á veitingastöðum og í veisluþjónustu. Enda ostrusveppir sælkeravara sem hægt er að nýta á margan hátt í matargerð.

 

Staðsetning: Kópavogur
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur