Steinselja í potti

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið

Steinselja er tvíær (blómgast og ber fræ á öðru ári) jurt af sveipjurtaætt og hér á landi er eingöngu ræktuð sú gerð sem er með hrokkin blöð (Petroselinum crispum var. crispum). Algengasta afbrigði hér er Bravour.

Dreifsáð er í bakka í sáðmold eða beint í fjölpottabakka. Fræið er lengi að spíra (allt að 2 vikur) en að lokinni forræktun (1 ½-2 mánuðir) er plantað út í gróðurhús ef ræktunin fer fram í beðum. Einnig er steinselja ræktuð í vatnsræktun (pottarnir standa í rennum og vökvað er með næringarlausn).

Uppskeran getur hafist um leið og plönturnar hafa myndað nægilega mörg blöð. Nauðsynlegt er að uppskera reglulega þannig að elstu blöðin verði aldrei ofþroskuð en ekki má taka of mikið í einu því það getur leitt til stöðvunar í vexti plantnanna. Blaðstilkarnir eru kliptir með nöglunum, blöðin búntuð í hæfilega stór bunt og teygja sett um stilkana. Síðan er búntunum pakkað í plast og þau kæld. Ef ræktað er á rennum eru plönturnar teknar með pottinum og þeim pakkað í plast.

Steinselja er ekki kvillasækin jurt og ef lífrænum vörnum gegn sveppasjúkdómum og meindýrum er komið fyrir strax í uppeldi heppnast ræktunin vel.

Þegar ræktað er í beðum er skipt um plöntur einu sinni á ári en í rennum tekur ræktunin 7 til 8 vikur.

Geymsla

Steinselju á að geyma í kæli við 0-2°C. Best er samt að geyma hana í götuðum plastpokum. Ef búið er að opna pokann er gott að láta stilkinn snúa í átt að opinu en passa samt að loka vel pokanum. Steinselju má líka geyma standandi í vatni ef á að nota hana fljótlega.

Notkun

Steinselja er notuð í salat, sósur, súpur, höfð með soðnu grænmeti og til að skreyta mat. Einnig er algengt að nota hana í pottrétti, ofnbakaða rétti og eggjaköku.
 
Húsráð: Gott er að tyggja steinselju á eftir mat sem inniheldur mikinn hvítlauk því að hún dregur úr hvítlaukslyktinni.
 

Má frysta steinselju ?

Steinselja hentar vel til frystingar. Þá er hún hlutuð í sundur, skoluð með köldu vatni og látið renna vel af henni áður en hún er fryst. Best er að hafa hana í litlum öskjum því hún er stökk þegar hún er frosin og molnar því auðveldlega. Þetta síðasta má að vísu notfæra sér þegar hún er borin fram, sáldrið henni frosinni beint yfir matinn.

Hvaða hluta er hægt að borða?

Alla hluta

Innihald í 100 g Vatn 88 g
Næringargildi í 100 g
Orka 135 kj
32 kcal
Fita 0,3 g
Þar af mettuð 0 g
Kolvetni 1,8 g
Þar af sykurtegundir 0,8 g
Trefjar 4,3 g
Prótein 3,5 g
Salt 0,1 g
NV*
A vítaín474 µg60%
E vítamín2,7 mg23%
B2 ríbóflavín0,30 mg21%
Níasín2,6 mg16%
Fólínsýra183 µg92%
C vítamín190 mg238%
Kalíum600 mg30%
Kalsíum228 mg29%
Járn3,6 mg26%
Sink1,60 mg16%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Steinselja er járnrík og hinniheldur karóten (forstig A-vítamíns), en eigi hún að hafa einhverja þýðingu í fæðunni þarf að neyta hennar reglulega og í talsverðu magni.
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur