Böðmóðsstaðir

Auðunn, María og Gabríel

Á Böðmóðsstöðum mitt í Bláskógabyggð rækta Auðunn Árnason, María Cecilie Wang og Gabríel Olav Auðunsson, þrjú af fimm manna fjölskyldu, um 100 tonn af grænmeti á ári.
Auðunn hefur búið þar frá barnæsku en saman hafa þau María ræktað grænmeti út frá nýbýlinu Böðmóðsstaðir 4 frá fyrri hluta níunda áratugarins. Sonur þeirra, Gabríel, kom inn í ræktunina árið 2020 eftir háskólanám í viðskiptafræðum.

Auðunn og María eru bæði lærðir garðyrkjufræðingar frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Hveragerði. María er einnig náttúrufræðingur og framhaldskólakennari að mennt. Árin 2016 til 2018 var hún einnig brautastjóri og stundakennari við garðyrkjuskólann.

Að Böðmóðsstöðum hefur verið stunduð grænmetisrækt frá því um miðja síðustu öld. Fyrst um sinn útirækt í bland við hefðbundinn bússkap. Um eða upp úr 1960 voru fyrstu gróðurhúsin reist á jörðinnni. Auðunn og María tóku alfarið yfir reksturinn um aldamótin þegar þau keyptu hlut foreldra Auðuns. Árið 2014 seldu þau stærstu gróðurhúsin og hafa aðallega lagt stund á útirækt á grænmeti síðan auk þess að rækta laukblóm og sumarblóm.

Helsta uppskeran að Böðmóðsstöðum er blómkál og kínakál. Skemmtilegt er að segja frá því að rétt eftir að Auðunn og María hefja ræktun eru þau með þeim fyrstu til að rækta kínakál utandyra á Íslandi. Það þótti ekki spennandi planta til að byrja með en með tilraunarækt á mismunandi yrkjum hefur sú skoðun heldur betur breyst. Þau eru síður en svo hætt tilraunastarfsemi því hluti af þeim tæpum 7 hekturum sem nýttir eru til að rækta grænmeti fer að nokkrum hluta undir tilraunarækt.

Upp á síðkastið hafa meðal annars verið gerðar tilraunir með kóralkál sem er blanda af blómkáli og brokkolí. Spennandi káltegund sem geymist sérlega vel. Fleiri tilraunir hafa verið gerðar t.d. með regnbogasalat og mizunasalat. Það síðarnefnda vex vel en er mjög vinnufrekt og hentar því ekki íslenskri ræktun að sinni. Þá er einnig ræktað hvítkál, raukál og blöðrukál í bland við ræktun á sumar- og laukblómum. Meðal annars túlípana og páskaliljur. Áform eru uppi á Böðmóðsstöðum að auka ræktun meðal annars með uppbyggingu á góðurhúsum.

 

 

Staðsetning: Bláskógabyggð
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur