Rauðkál

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið

Rauðkál er náskylt hvítkáli og er meginmunurinn fólginn í litnum en rauðkálið er ýmist rautt eða blárautt. Rauðkál er seinvaxið og þarf því að sá því snemma  ef uppskera á að vera örugg seinni hluta sumars.  Algengt afbrigði er Primero.

Geymsla

Besti geymsluhiti fyrir rauðkál er 0-5°C. Ef vel er passað upp á geymsluhitann getur rauðkál geymst í margar vikur. Samt þarf að passa að verja það fyrir dragsúg. Rauðkál þarf mikinn raka til að það þorni ekki upp og er því gott að geyma það í þeirri pakkningu sem það kemur í frá framleiðanda. Einnig verður að passa að pakka rauðkálinu vel inn í plast eftir að það hefur verið skorið niður til að það þorni síður upp.

Notkun

Rauðkál má nota hrátt og fínt skorið í salat eða út í súpu. Notið rauðkál soðið, smjörsteikt eða niðursoðið. Hafið ystu blöðin einnig með þar sem þau eru næringarríkust. Með hátíðarmat er gott að nota rauðkál sem soðið hefur verið með lauk og eplum og kryddað með ediki, sykri, salti og negul. Hæfilegt er að sjóða það í 10 – 15 mínútur ef það er fínt skorið. Ef kálið hefur verið geymt lengi þarf að nota meira vatn í suðuna, annars getur bragðið orðið beiskt.

Má frysta rauðkál ?

Þar sem ferskt rauðkál er bara á markaði hluta ársins er gott að grípa til þess og frysta það. Hreinsið kálið og fjarlægið stöngulinn. Skerið kálið í mjóa strimla og snöggsjóðið í 3 mínútur. Frystið það í plastpokum þegar það hefur kólnað. Hafið í huga að við frystingu rýrna bæði bragðgæði og næringargildi kálsins.

Hvaða hluta er hægt að borða ?

Alla hluta rauðkálsins má borða

 

Innihald í 100 g Vatn 92 g
Næringargildi í 100 g
Orka 111 kj
26 kcal
Fita 0,2 g
Þar af mettuð 0 g
Kolvetni 3,3 g
Þar af sykurtegundir 3,2 g
Trefjar 2,6 g
Prótein 1,6 g
Salt 0,01 g
NV*
Fólínsýra46 µg23%
C vítamín51 mg63%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur