Gúrkur
Gúrkuplantan, Cucumis sativus, er einær jurt úr graskersættinni (Cucurbitaceae). Af gúrkum eru einkum tvö afbrigði í ræktun, annars vegar hefðbundnar gúrkur og hins vegar þrúgugúrkur. Ræktun hefðbundinna gúrkna hér á landi hefst upp úr 1925 og eru nú ræktaðar gúrkur árið um kring.
Þegar ræktað er árið um kring með lýsingu (220 W/m2) er plantað út allt að 5 sinnum á ári, en í hefðbundinni ræktun er plantað 2 sinnum, í febrúar og í maí – júní.
Gúrkur eru ræktaðar í vikri, steinull eða torfi/jarðvegi og best er að fræjunum sé sáð í sama efni og ræktunin fer fram í. Sáningin fer fram við hátt hitastig (25°C ) og spírunin gengur hratt fyrir sig eða ca 2 sólarhringar. Plönturnar eru síðan hafðar í uppeldi með fullri lýsingu í allt að 3 vikur en þá er þeim plantað út í gróðurhús.
Geymsla
Góðar og heilbrigðar gúrkur geymast í rúma viku án þess að dragi úr gæðum ef aðstæður í geymslunni eru réttar, en fljótt getur dregið úr geymsluþoli ef svo er ekki.
Notkun
Gúrkur má nota í flestar gerðir af salati, sem álegg ofan á brauð og til að skreyta kalda og heita rétti. Gúrkur eru góðar í þeytinga. Þær má skera í teninga og blanda saman við rækjusalat, kjúklingasalat, ítalskt salat og fleira. Einnig eru gúrkur góðar með pastaréttum í fisk- og grænmetisrétti. Já, gúrkur eru góðar alltaf og með nánast öllu 😉
Hvaða hluta er hægt að borða?
Af gúrkunni má borða allt. Umfram allt á að borða hýðið, í því er næringargildi gúrkunnar einkum fólgið.
Má frysta gúrkur?
Já, hægt er að frysta gúrku, en hún verður mjúk og vatnsósa. Því er best að skera hana í þunnar sneiðar og frysta (án þes að hita þær áður). Hins vegar er best að borða gúrku ferska.
Innihald í 100 g | Vatn 96 g |
---|
Næringargildi í 100 g | |
---|---|
Orka | 156 kj |
13 kcal | |
Fita | 0,1 g |
Þar af mettuð | 0 g |
Kolvetni | 1,9 g |
Þar af sykurtegundir | 1,9 g |
Trefjar | 0,9 g |
Prótein | 0,8 g |
Salt | 0 g |
NV* | ||
---|---|---|
* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum