Blómkál
Blómkálið er ketó-heilinn í fjölskyldunni og kann því vel, enda eftirlæti þeirra sem vilja skera niður kolvetni. Hakkað í mjöl fyrir pizzuna, rifið í grjón með fiskinum eða bakað í heilu lagi. Það er nú heila málið, með blómkálið.
Blómkál (Brassica oleracea ) Ætu hlutar blómkálsins eru blómhnapparnir og blómstilkarnir, það sem í daglegu tali er kallað blómkálshöfuð.
Ræktun blómkáls er erfið því algengt er að blómkálið myndi örsmá höfuð áður en það hefur myndað nægjanlegt blaðmagn til að það nái að mynda eðlilegt höfuð. Slíkt gerist einkum þegar plantað er út mjög snemma og plönturnar lenda í hreti en einnig getur það gerst ef of heitt er á plöntunum.
Sáð er til blómkáls í gróðurhúsum og plantað út upp úr miðjum maí háð tíðarfari. Blómkálið er uppskorið meðan það er þétt og hvítt/hvítkremað á litinn.
Blómkál getur geymst í kæli við 0°C í 2 – 4 vikur ef hausarnir eru góðir og mikið af blöðum er haft á. Algeng fljótsprottin afbrigði eru Arizona og Fargo, síðan taka við Barcelona, Fremont og Mayflower.
Geymsla
Blómkál geymist langbest við 0-2°C og við réttar aðstæður getur það geymst í nokkuð langan tíma. Það má ekki vera þar sem er sterkt ljós né dragsúgur. Einnig verður að passa mjög vel að það standi ekki nálægt öðru grænmeti né ávöxtum því blómkál er mjög viðkvæmt fyrir etýlen (etýlen er lofttegund sem myndast í grænmeti og ávöxtum og framkallar oft beiskt bragð).
Notkun
Nota má blómkál ósoðið í flesta salatrétti. Höfuðið má sjóða í heilu lagi eða brjóta það í „blómvendi“ áður en það er soðið. Vatnið á að sjóða áður en blómkálið er sett út í; lengd suðutímans er reyndar nokkuð háð smekk. Eigi að baka kálið í ofni ætti ekki að sjóða það lengur en í 10 mínútur. Ofnbakað blómkál með niðurskorinni papriku, skinku og ostasósu er ódýr aðalréttur sem fljótlegt er að útbúa og hentar við ýmis tækifæri. Blómkál er einnig gott í súpu, kássur og bakað eggjafrauð („suffle“).
Má frysta blómkál?
Já, með góðum árangri. Kálið er hreinsað, skorið í „vendi“ og snöggsoðið fyrir frystingu. Einnig ætti að nota hrein, græn blöðin sem umlykja höfuðið en þau þarf líka að snöggsjóða fyrir frystingu. Fryst blómkáll hentar aðeins í soðna rétti eða ofnrétti. Ekki þarf að þíða blómkálið fyrir matreiðslu, takið það úr frystinum og setjið beint í sjóðandi vatn.
Hvaða hluta er hægt að borða?
Borða má alla hluta blómkálsins.
Innihald í 100 g | Vatn 92 g |
---|
Næringargildi í 100 g | |
---|---|
Orka | 101 kj |
24 kcal | |
Fita | 0,4 g |
Þar af mettuð | 0,8 g |
Kolvetni | 1,9 g |
Þar af sykurtegundir | 1,9 g |
Trefjar | 2,6 g |
Prótein | 2,0 g |
Salt | 0,01 g |
NV* | ||
---|---|---|
Fólínsýra | 120 µg | 60% |
C vítamín | 78 mg | 98% |
Kalsíum | 290 mg | 15% |
* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum