Tómatbrauð

Eða pizza

Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir

Innihaldslýsing:
  • 300 ml vatn, ylvolgt

  • 1 msk þurrger

  • 1 tsk hunang

  • 2 msk olía

  • 1 ½ tsk salt

  • 450 g hveiti (eftir þörfum)

  • 4 msk rautt pestó

  • 6-800 g tómatar,  plómutómatar henta vel

  • 20 ólífur, steinlausar

  • 1 msk ferskt óreganó eða 1 tsk þurrkað

  • 1 ostarúlla með beikon- og paprikublöndu frá Ostahúsinu

  • 100 g rifinn ostur

Leiðbeiningar:

Það má alveg kalla þetta pizzu en reyndar er þetta fremur brauð bakað með tómatáleggi.

Vatnið sett í skál, geri og hunangi blandað saman við og látið standa í nokkrar mínútur.

Þá er olíu og salti blandað saman við og síðan hveitinu smátt og smátt, þar til deigið er vel hnoðunarhæft en þó fremur lint.

Hnoðað vel og síðan látið lyfta sér í um 1 klst.

Þá er deigið hnoðað aftur smástund og síðan flatt eða teygt út í kringlótt brauð, þykkast út við kantana.

Pestó smurt á miðjuna.

Tómatarnir skornir í 1-1½ cm þykkar sneiðar (gott að kreista svolítið af safanum úr hverri sneið) og raðað ofan á.

Ólífum og söxuðu óreganó dreift yfir.

Ostarúllan klipin í bita og þeim dreift yfir og að lokum er rifna ostinum stráð yfir.

Látið bíða á meðan ofninn er hitaður í 220°C.

Brauðið er svo bakað í um 20 mínútur eða þar til það hefur lyft sér vel og tekið góðan lit og osturinn er gullinbrúnn.

Brauðið er best volgt en það má líka borða það kalt.