Hveravellir

Heiðbjört og Páll

Hjónin Páll Ólafsson og Heiðbjört Ólafsdóttir eru garðyrkjubændur á Hveravöllum í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjasýslu. Páll er uppalinn á Hveravöllum og tóku þau Páll og Heiðbjört við af foreldrum Páls þeim Ólafi Atlasyni og Öldu Pálsdóttur, en sama fjölskyldan hefur rekið fyrirtækið frá stofnun þess árið 1904. Páll er fjórði ættliðurinn sem ræktar grænmeti á Hveravöllum.

Til að byrja með voru ræktaðar kartöflur, en árið 1933 var fyrsta gróðurhúsið byggt og var það 50 fermetrar að flatarmáli og þá hófst tómatarækt á staðnum. Þremur árum síðar var öðru gróðurhúsi bætt við og var það helmingi stærra. Nú eru húsin 11 og þekja um 9000 fermetra. Tómatar og gúrkur eru ræktaðar allt árið um kring. Auk þess að rækta tómata og gúrkur er einnig ræktuð paprika.

Garðyrkjubændur á Hveravöllum leggja metnað sinn í ferskleika og gæði sem skilar sér til neytandans. Tómatar eru tíndir þrisvar í viku, paprika tvisvar í viku, en gúrkurnar eru tíndar tvisvar á dag alla daga vikunnar. Tómatar eru flokkaðir eftir lit og stærð, áður en þeim er pakkað í neytendaumbúðir. Um fjórtán ársverk eru á Hveravöllum. Jarðhiti er á Hveravöllum eins og nafnið gefur til kynna og hverirnir, Ystihver og Uxahver eru á meðal stærstu hvera landsins. Vistvæn ræktun er á Hveravöllum og eru gróðurhúsin hituð upp með hveravatni.

Staðsetning: Hveravellir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur