Brún

Axel og Þorsteinn

Garðyrkjubýlið Brún er í miðju Flúðahverfinu. Þetta er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Birgis Thorsteinson og Margrétar Böðvarsdóttur og sona þeirra, Axels Thorsteinson og Þorsteins Thorsteinson.

Brún er stofnað 1970 af Birgi og Margréti og fyrsta gróðurhúsið var reist 1973. Í dag eru 3500 fermetrar undir gleri og heilsársræktun í um helmingi gróðurhúsanna.

Frá upphafi hafa nánast eingöngu verið ræktaðir tómatar á Brún en árið 1999 var byrjað að rækta kirsuberjatómata. Sú ræktun var aukin á hverju ári og eru nú eingöngu ræktaðir smátómatar á Brún. Kirsuberjatómatar eru enn helsta ræktun en einnig eru ræktaðir kokteiltómatar og litlir San Marzano tómatar.

Kokteiltómatarnir sem eru ræktaðir á Brún eru aðeins stærri en kirsuberjatómatar, hnöttóttir og afbrigðið sérlega ríkt af andoxunarefninu lykopen.

Litlu San Marzano tómatarnir eru seldir hér undir heitinu Smátómatar Marzano og af þeim eru ræktuð tvö afbrigði og blandað saman í öskjur rauðum og appelsínugulum tómötum. Þessi gerð tómata á uppruna sinn að rekja til Ítalíu og hentar einstaklega vel í salat, pastarétti eða á pizzu.

Lífrænum vörnum er beitt markvisst við ræktunina á Brún og býflugur sjá um frjóvgun blómanna svo aldinþroski verði sem bestur. Tómatar eru ræktaðir í Hekluvikri og vökvaðir með fersku íslensku drykkjarvatni. Allt er gert til að tryggja gæði og ferskleika framleiðslunnar áður en tómatarnir fara á borð íslenskra neytenda.

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur