Ásinn

Sigurlaug og Ómar

Hjónin Sigurlaug Angantýsdóttir og Ómar Sævarsson hafa verið ylræktendur í Laugarási Biskuptungum í um þrjá áratugi. Árið 1994 keyptu þau garðyrkjustöðina Heiðmörk af foreldrum Ómars, sem höfðu stofnað hana og rekið um þrjátíu ára skeið. Síðar keyptu Sigurlaug og Ómar einnig garðyrkjustöðina Birkiflöt á sama stað og fór ræktunin fram undir nafni Heiðmerkur í um 5000 m2. Þar ræktuðu þau tómata, gúrkur, steinselju og salat allt árið um kring. Allt undir raflýsingu og frá yl heita vatnsins í Laugarási.

Birkiflöt seldu þau 2015 og árið 2021 seldu þau Heiðmörk. Þær stöðvar eru enn í fullum reksti og leggja vörur sínar inn í Sölufélag garðyrkjumanna.

Þau voru þó ekki alveg tilbúin að hætta ræktun enda hún þeim í blóð borin. Að þessu sinni snéru hjónin sér alfarið að útirækt en Ómar hafði áður lagt stund á hana með ylræktinni um nokkurra ára skeið.

Sigurlaug og Ómar stofnuðu Ásinn garðrækt og rækta spergilkál, blómkál og kínakál. Forræktun kálsins fer fram í upphituðu gróðurhúsi. Plantað er út eftir miðjan maí í landi hins sögufræga staðar, Skálholts, og til að auðvelda plöntunum að þroskast er akríldúkur settur yfir akrana. Uppskera kálsins hefst síðan í júlí og stendur yfirleitt til byrjunar október en öll útirækt er mjög háð hitastigi og veðri. Að lokinni upptöku hverju sinni er kálið sett strax í kæli og sent reglulega til neytenda.

 

Staðsetning: Skálholt
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur