Smjörsteikt hvítkál
Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir

1 íslenskur hvítkálshaus, meðalstór
1 laukur
50 g smjör
100 ml eplasafi (einnig má nota appelsínusafa)
2 msk eplaedik (cider vinegar)
1/2 tsk timían, þurrkað
Nýmalaður pipar
Salt
Hvítkálið skorið í fjórðunga, stilkurinn fjarlægður og kálið síðan skorið í þunnar ræmur.
Laukurinn saxaður smátt.
Smjörið brætt á stórri pönnu og laukurinn látinn krauma í því við fremur vægan hita þar til hann er meyr.
Þá er kálinu bætt á pönnuna og það látið krauma í um 5 mínútur. Hrært oft á meðan.
Eplasafa og edik hellt á pönnuna, kryddað með timían, pipar og salt, lok lagt yfir og látið malla við vægan hita í um 5 mínútur.
Síðan er lokið fjarlægt og kálið látið sjóða áfram í 2-3 mínútur, eða þar til nær allur vökvi er gufaður upp.
Þessi kálréttur er sérlega góður með reyktu svínakjöti, pylsum, bjúgum o.fl. og hentar einnig með fuglakjöti og lambasteik.