Paprikur

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið

Paprika er af náttskuggaætt . Af öðrum nytjaplöntum úr sömu ætt má t.d. nefna kartöflur, tómat og eggaldin.

Algengustu afbrigði hér á landi eru Ferrari sem gefur græn aldin sem verða rauð þegar þau eru fullþroskuð, Bossanova sem gefur aldin sem fullþroskuð verða gul en eru græn fyrst og Boogie er aldin þess afbrigðis verða appelsínugul þegar þau eru fullþroskuð.

Aldinið er uppskorið þegar það hefur tekið endanlegan lit.  Það tekur aldinið um 8 vikur að verða fullþroskað og 3 vikur frá því að það er tínsluhæft grænt þar til það er orðið fullþroskað og komið með endanlegann lit.

 
Venjan er að planta út þegar fyrsti knúppur er vel sýnilegur en áður en hann opnast. Plantað er út í jarðveg, torfmottur, steinullarmottur eða í vikur og líkt og í tómötum er plantan bundinn upp í víra eftir útplöntun.

Geymsla

Geymsluþol papriku er nokkuð mismunandi, grænar paprikur geymast betur. Besti geymsluhiti fyrir paprikur er 10-15°C. Ef paprika er geymd í of miklum kulda þá linast hún fyrr.

Notkun

Paprikan er skoluð og stilkurinn, himnur og fræ fjarlægt (himnur og fræ eru nokkuð bragðsterk). Síðan má skera hana í hringi og hafa sem álegg ofan á brauð, á ostabakkann eða salat. Einnig má hreinsa innan úr aldinunum, fylla þau með kjöthakki eða öðru góðgæti. Mjög gott er að grilla papriku á útigrilli. Mikið af uppskriftum innihalda papriku.

Má frysta paprikur?

Já, það tekst oftast vel. Skolið aldinin, skerið þau í tvennt og fjarlægið himnur og fræ. Skerið þau síðan niður í þunnar sneiðar eða litla teninga til að nota síðar í heita rétti eða salat.
Neyta þarf paprikunnar skömmu eftir að hún þiðnar því hún verður fljótlega vatnskennd ef hún hefur verið fryst. Einnig má skera aldinin í tvennt eftir að þau hafa verið hreinsuð og frysta í heilu lagi. Setjið fyllingu í hana fyrir frystingu eða um leið og aldinin eru tekin út og setjið beint í heitan ofn.
 

Hvaða hluta er hægt að borða?

Allt er ætt nema stilkurinn, himnurnar og fræin, það er fjarlægt fyrir notkun.

Sjá nánar gómsætar paprikuuppskriftir hér:

 

Innihald í 100 g Vatn 91 g
Næringargildi í 100 g
Orka 138 kj
32 kcal
Fita 0,2 g
Þar af mettuð 0 g
Kolvetni 5,4 g
Þar af sykurtegundir 5,4 g
Trefjar 2,3 g
Prótein 1,2 g
Salt 0, g
NV*
C vítamín200 mg250%
B6 vítamín0,45 mg32%
Kalíum290 mg15%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Næringargildin hér að ofan eiga við rauðar paprikur. Örlítill munur er á milli lita en við völdum að gefa upp næringargildi vinsælasta litsins. Paprikan er einkar rík af B- og C-vítamíni, rauð aldin innihalda þrisvar sinnum meira C-vítamín heldur en appelsínur og græn aldin tvöfalt meira. Í þeim er einnig mikið af A- vítamíni, steinefnum og trefjum. Paprika er hitaeiningasnauð
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur