Kartöflur rauðar

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið

Kartöflur (Solanum tuberosum) hafa verið í ræktun á Íslandi í um 250 ár. Neysla kartaflna hefur minnkað frá því hún var mest en samt borðum við að meðaltali 28 kg á ári.

Ísland er á norðurmörkum ræktunarsvæðis kartaflna og er því mikil sveifla í uppskerunni eftir tíðarfari. Algengustu afbrigði í ræktun eru Gullauga, Rauðar íslenskar og Premier. Premier er fljótvaxið afbrigði, Gullauga miðlungi fljótvaxið en Rauðar eru seinar. Hérlendis er það frekar regla en undantekning að láta útsæði í forspírun.

Vegna lágs meðalhita sumarsins og stutts vaxtartíma er forspírun nauðsynleg til að Gullauga og Rauðar íslenska nái viðunandi þroska í meðalári. Vaxtartíminn er nógu langur fyrir snemmsprottin afbrigði án forspírunar en kosturinn við forspírun á þeim er að unnt er að taka upp í sumarsölu.

Töluvert er um að setja dúk (plast- eða trefjadúk) yfir garðinn eftir niðursetningu og hann látinn vera á þar til grös eru komin vel upp. Fyrir upptöku er mikilvægt að kartöflurnar séu búnar að þroska gott hýði því þannig geymast þær betur. Kjörhitastig í geymslu er um 4°C.

Geymsla

Kartöflur á að geyma við 4-6°C og mikinn raka en við slík skilyrði geymast þær í allt að 6 mánuði án þess að dragi úr gæðum. Lofta þarf vel um kartöflurnar þar sem þær eru geymdar, þó má kaldur dragsúgur ekki leika um þær. Kartöflur mega ekki vera í birtu, þá myndast í þeim sólanin og hníðin verða græn. Á heimilum er best að geyma kartöflur í ísskápnum en passa að það lofti vel um þær.

Notkun

Hér á landi er rík hefð fyrir notkun á kartöflum og flestir kunna að matbúa þær. Þó má alltaf auka fjölbreytnina. Á þessari vefsíðu er að finna margar einfaldar og skemmtilegar kartöfluuppskriftir.
Sjá nánar hér:

Má frysta kartöflur?

Hægt er að frysta forsoðnar kartöflur í sneiðum eða sem stöppu, en þar sem kartöflur eru fáanlegar allt árið á lágu verði og ferskar kartöflur eru mun bragðbetri en frystar, þá er lítil ástæða til að frysta þær.

Hvaða hluta er hægt að borða ?

Af nýjum kartöflum má borða allt.

 

Innihald í 100 g Vatn 77 g
Næringargildi í 100 g
Orka 305 kj
72 kcal
Fita 0,3 g
Þar af mettuð 0,06 g
Kolvetni 14,2 g
Þar af sykurtegundir 0,6 g
Trefjar 2,0 g
Prótein 2,2 g
Salt 0,01 g
NV*
Kalíum400 mg20%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Kartöflur eru með mikilvægustu uppsprettum B- og C-vítamíns í fæðunni. Einnig innihalda kartöflur járn, kalk, fosfór og trefjar. Í þeim er mikill mjölvi sem gerir þær mettandi þó þær séu ekki mjög hitaeiningarríkar. Æskilegt er að sjóða kartöflur með hýðinu, annars tapast mikið af næringarefnum út í suðuvatnið. Séu þær afhýddar fyrir suðu ber að nota eins lítið vatn við suðuna og kostur er og nota síðan vatnið í sósur eða til brauðgerðar til að nýta næringarefnin sem skolast hafa út.
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur