Vesturholt II
Karen og Helgi
Hjónin Helgi Ármannsson og Karen Eva Sigurðardóttir búa í Þykkvabænum ásamt börnunum sínum tveimur og rækta þar kartöflur. Áhugann á kartöflurækt sækir Helgi ekki langt því öll nánasta fjölskylda hans foreldrar og bróðir rækta kartöflur í Þykkvabænum. Stórfjölskyldan er samheldin, hjálpast að við ræktunina, samnýtir vélar við upptöku og niðursetningu. Þetta hefur reynst Helga og Karen vel þar sem Karen er einnig hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í sveitinni.
Landið Sólbakka keyptu þau Helgi og Karen árið 2016 af foreldrum Helga og hófu þar ræktun. Ræktunin þekur um 15 hektara lands og gefur af sér um 350 kartöflusekki sem hver vegur að jafnaði um 700 kíló svo ársframleiðslan er um 250 tonn.
Til að halda jörðinni frjórri er stunduð skiptirækt með korni. Það korn sem fellur til og þær kartöflur sem ekki þykja ýkja söluvænar eru svo nýttar sem fóður í nautgriparækt þeirra hjóna sem þau stunda meðfram kartöfluræktinni. Þau eru alla jafna með um 10-15 ungnaut á fóðri.