Flúðajörfi

Friðrik og Georg

Flúðajörfi á Flúðum var stofnuð árið 1977. Georg Ottósson rekur Flúðajörfa auk þess að reka Flúðasveppi. Á Flúðajörfa eru ræktaðir tómatar og paprikur í 5000 fermetrum gróðurhúsa, jafnframt útirækt á um 40 hekturum í landi Hvítárholts. Í útiræktinni eru helstu tegundirnar spergilkál, blómkál, rauðkál og gulrætur. Flúðajörfi er stærsti framleiðandi spergilkáls og gulróta á Íslandi

Georg er umhugað að ganga vel um landið og í útiræktinni stundar hann svokallaða vistvæna skiptirækt með gænmetið annarsvegar og korn og strandreyr hinsvegar. Þá er korn ræktað í tvö til þrjú ár í jarðveginum áður en skipt er yfir í grænmetið og það ræktað í einhvern tíma áður en skipt er aftur. Þetta gerir það að verkum að ekki er gengið á næringuna í  jarðveginum.

Á Flúðajörfa vinna 10 manns við ræktunina. Raflýsing er í gróðurhúsunum og allt grænmetið vökvað með neysluvatni. Býflugur sjá um að fræva plönturnar og lífrænum vörnum er beitt. Tómatarnir eru handtíndir þrisvar í viku og paprikurnar eru tíndar einu sinni í viku. Allt grænmetið er handflokkað og pakkað á staðnum. Það fer síðan beint til neytenda svo ferskleikinn sé tryggður.

Í útiræktinni er reynt að nota eins mikinn vistvænan áburð og kostur er og er búið að minnka tilbúinn áburð um 35 % og er sveppamassi frá Flúðasveppum notaður í staðinn. Um 800 tonn af massa fara árlega á akrana þar sem útiræktin er.
Flúðajörfi ræktar um 300 tonn af gulrótum og 70-100 tonn af spergilkáli á ári.

Friðrik Rúnar Friðriksson er bústjóri á Flúðajörfa, þar sem þeir Georg og Friðrik vinna náið saman.

 

 

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur