Spergilkál

Jan
Feb
Mar
Apr
Maí
Jún
Júl
Ágú
Sep
Okt
Nóv
Des
Íslenska grænmetisdagatalið
Spergilkál eða brokkoli er vinsælt grænmeti, bæði næringarríkt og gott. Auðvelt er að rækta það hér á norðurslóðum en það er ekki eins viðkvæmt fyrir sveiflum í veðurfari og blómkál. Helst að það þoli illa langvarandi vætutíð á uppskeru tímanum.
 
Spergilkál er ekki eins viðkvæmt fyrir kálflugu eins og aðrar káltegundir. Spergilkál er vinnufrekt á uppskerutímanum, því mikilvægt er að það sé uppskorið á réttu þroskastigi og því nauðsynlegt að fara reglulega í gegnum garðinn.
 
Geymsluþol er takmarkað en það getur geymst að hámarki í hálfan mánuð ef það er kælt hratt niður í 0,5°C. Helstu afbrigði eru Lord, Marathon og Milady.

Geymsla

Spergilkál geymist allvel ef geymsluskilyrðin eru rétt. Besti geymsluhitinn er 0-2°C. Mikilvægt er að verja sperglana fyrir birtu og dragsúg. Spergilkáli hættir við þornun þannig að gott er að vefja það plasti eða geyma það í þeim umbúðum sem því er pakkað í af framleiðanda.

Notkun

Skerið um þriðjung neðan af stilkunum og flysjið þykka stilka. Séu stilkarnir þykkir má skera þá í tvennt eftir endilöngu til að stytta eldunartímann. Spergilkál er mest notað sem meðlæti með heitum réttum og hentar einkum vel með lamba- og kjálfakjöti. Það má oftast nota í rétti þar sem gert er ráð fyrir að nota blómkál og bragðast mjög vel með smjöri eða ofnbakað með skinkubitum og ostasósu. Spergilkál er mikið notað á Ítalíu og hentar vel með öllum ítölskum réttum. Soðnir sperglar sem vafið er innan í beikonsneiðar bragðast mjög vel með kjúklingi eða kalkún.

Má frysta spergilkál ?

Já, spergilkál hentar vel til frystingar. Það borgar sig að gera stórinnkaup á spergilkáli þegar verðið er lágt og frysta það til vetrarins. Sperglarnir eru snyrtir eins og lýst var hér að ofan, settir í sjóðandi vatn í 3 – 4 mínútur og snöggkældir í köldu vatni áður en þeir eru frystir. Blöðin mega gjarnan fylgja stilkunum.

Hvaða hluta er hægt að borða?

Borða má allan spergilinn. Hafið í huga að stór hluti næringargildisins liggur í stilkunum.

Innihald í 100 g Vatn 89 g
Næringargildi í 100 g
Orka 176 kj
42 kcal
Fita 0,9 g
Þar af mettuð 0,2 g
Kolvetni 1,5 g
Þar af sykurtegundir 1,5 g
Trefjar 3,4 g
Prótein 5,3 g
Salt 0 g
NV*
Fólínsýra133 mg67%
C vítamín123 mg154%
Kalíum395 µg20%

* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum

Spergilkál er orkusnautt en ríkt af vítamínum og steinefnum. Eins og hjá blómkáli er stór hluti næringargildisins fólginn í stilknum og blöðunum, þannig að einnig á að neyta þeirra. Spergilkál er einnig trefjaríkt og góður kostur í stað spínats fyrir fólk sem þjáist af járnskorti.
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur