Snakk paprikur
Snakk paprikur eru smærri og sætari útgáfa af paprikum. Fullkomnar til að grípa með sér sem millimál, nýta í forréttinn eða sem bragðgóður aðalréttur. Hægt er að borða snakk paprikur beint úr glasinu og hentar vel sem nesti í skólann eða laugardagsnammi. Fylltar snakk paprikur eru góðar til að fylla með ostum og baka inni í ofni með örlitlu eldpiparkryddi ofan á.
Ræktun á snakk paprikum svipar mjög til ræktunar á stórum paprikum en meiri fjöldi aldina er á hverri plöntu og vega ekki nema um 30-35 gr. hver. Snakk paprikurnar koma í 4 litum, gulum, rauðum, appelsínugulum og grænum. Hver litur hefur sitt bragð, stærð og áferð. Öll fræin eru í toppi snakk paprikunnar, undir stilknum og því auðvelt að borða í kringum þau. Snakk paprikur eru alveg lausar við allt capsaicin sem eldpiprar innihalda og eru því ekki sterkar á bragðið.
Geymsla
Snakk paprikur geymast best við 7-10°C og má geyma í kæli líkt og eldpipra. Þannig geymast þær í allt að 5 vikur eða jafnvel lengur. Ef hitastigið er þó of lágt geta snakkpaprikurnar orðið fyrir kæliskemmdum og verða linar á þeim stöðum. Þær eru þó sætari ef þær hafa náð stofuhita áður en þær eru borðaðar. Líkt og með aðrar paprikur og eldpipra er hægt að frysta þær ef nota á til matreiðslu síðar. Best er að vera búin að skera snakkpaprikurnar niður í bita sem á að elda ef þær eru settar í frystinn.
Notkun
Nota má alla hluta aldinsins og fræin eru laus við allan hita, hægt að borða ferskar, nota í pastarétti eða sósur, þurrka fyrir krydd, súrsa, sulta eða baka. Gott er að fylla með ostum, bauna eða kjötfyllingu og setja inn í ofn í 10 mínútur við 180°C með blæstri eða 200°C undir yfirhita. Við bökun verða þær enn sætari.
Innihald í 100 g | Vatn 91 g |
---|
Næringargildi í 100 g | |
---|---|
Orka | 138 kj |
32 kcal | |
Fita | 0,2 g |
Þar af mettuð | 0 g |
Kolvetni | 5,4 g |
Þar af sykurtegundir | 5,4 g |
Trefjar | 2,3 g |
Prótein | 1,2 g |
Salt | 0, g |
NV* | ||
---|---|---|
C vítamín | 200 mg | 250% |
B6 vítamín | 0,45 mg | 32% |
Kalíum | 290 mg | 15% |
* Hlutfall af næringarviðmiðunargildum