Kostir vöðvaþjálfunar
Við vitum öll að það er hollt og gott að hreyfa sig.
Við reynum auðvitað að finna okkur þá hreyfingu sem okkur líkar best við, því hvers kyns hreyfing er af hinu góða.
Hér ætla ég að tala aðeins um kosti vöðvaþjálfunar.
Margar rannsóknir sýna að ef ekkert er að gert til að viðhalda vöðvunum með þjálfun geta þeir rýrnað allt upp í 50% frá 20 til 90 ára. Vöðvarnir rýrna og í staðinn kemur fita.
Vöðvaþjálfun kemur í veg fyrir þessa rýrnun og jafnvel eykur vöðvamassa sama á hvaða aldri þú ert.
Með þjálfun komum við ekki bara í veg fyrir þessa rýrnun. Það eru margir aðrir kostir sem fylgja.
Líkaminn getur unnið hraðar og lengur án þess að þú finnir fyrir þreytu.
Þú getur unnið gegn minnkuðum styrk, beinþynningu og vöðvarýrnun sem fylgir því að eldast
Þú viðheldur liðleika
Þú átt auðveldara með að viðhalda réttri þyngd
Með vöðvaþjálfun er ég að tala um æfingar eins og gólfæfingar og að lyfta lóðum. Það þarf ekki endilega að arka af stað inn í næstu líkamsræktarstöð. Það er alveg nóg að verða sér úti um 2 létt lóð til að byrja með og fá sér bók eða myndband sem kennir einfaldar æfingar. Þegar lóðin eru svo orðin of létt, sem gerist fljótt, er bara að verða sér úti um aðeins þyngri lóð.
Þolþjálfun svo sem hlaup, ganga og hjólreiðar styrkja hjartað (sem er einnig vöðvi) með því að auka hjartsláttinn og neyðir það þannig til þjálfunar. Hins vegar styrkir vöðvaþjálfun aðra vöðva líkamans þrátt fyrir að hjártslátturinn aukist ekki eins og við þolþjálfun.
Rannsóknir sýna að vöðvaþjálfun er lykillinn að aukningu brennsluhraða líkamans og getur hraði brennslunnar aukist um allt að 15%.
Miriam E. Nelson Ph.D. í Tufts háskóla í Boston gerði rannsókn þar sem hún bar saman 2 hópa af konum sem voru töluvert yfir kjörþyngd. Þessar konur áttu erfitt með mikla hreyfingu eins og göngu og hlaup. Allar voru þær á sama fæði en annar hópurinn stundaði vöðvaþjálfun en hinn ekki. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að sá hópur sem stundaði vöðvaþjálfun missti 44% meira af fitu en hinn hópurinn.
Rannsókn hennar sýndi að vöðvaþjálfun getur komið í veg fyrir vöðvarýrnun og beinþynningu sem hrjáir svo margar konur á seinni árum ævinnar. Það sem kom henni mest á óvart við niðurstöðu rannsóknarinnar var hversu mikla hjálp vöðvaþjálfunin veitti við varanlegt viðhald kjörþyngdar.
Þegar við erum að passa matarræðið og erum að léttast gerum við ráð fyrir því að sú þyngd sem við missum sé í formi fitu. Þar til nýlega hafa læknar og vísindamenn einnig haldið því fram. En nú hafa vísindamenn skoðað þetta nánar og komist að annarri niðurstöðu. Þegar konur léttast á þennan hátt er a.m.k. 25-30% af þyngdarmissinum ekki fita heldur vatn, vöðvar, bein og aðrir vefir. Þetta er niðurstaðan sama hversu mikið magn af próteini og kalki fæðan inniheldur. Því hraðar sem þyngdarmissirinn verður því minna hlutfall af fitu og meira af öðrum vefjum líkamans hverfur.
Þessar niðurstöður segja okkur hversu miklu máli vöðvaþjálfun skiptir þegar einstaklingar vilja létta sig og koma sér í form. Þær segja okkur einnig að það skiptir miklu máli að halda þessum æfingum áfram þegar kjörþyngd hefur náðst.