Regluleg hreyfing

Hvernig er líkamsformið þitt?

Hefurðu einhvern tímann prófað að vera í góðu líkamlegu formi?

Það er frábær tilfinning að geta og langa að hlaupa upp stigann upp á fjórðu hæð, frekar enn að bíða eftir lyftunni. Að finna hvað það er auðvelt. Hjartslátturinn verður hraðari og þú finnur blóðið streyma um líkamann. Þú andar örar en jafnar þig um leið og upp er komið.
Að finna að þig langi frekar að taka út hjólið og hjóla út í búð frekar en að fara upp í bílinn er svo góð tilfinning.

Er þetta raunin hjá þér í dag eða er þetta veik minning um liðinn tíma? Hefurðu kannski aldrei verið í góðu líkamlegu formi eða kannski ekki síðan þú varst barn?
Þegar þú ert í góðu líkamlegu formi verður öll hreyfing svo auðveld og þegar þú hreyfir þig þá langar þig í meira.

Slepptu lyftunni, taktu stigann og legðu bílnum lengra frá áfangastað. Mundu að öll aukahreyfing telur.
Hálftíma hreyfing á dag eða jafnvel þrisvar sinnum 20 mínútur á dag getur verið byrjunin. Rannsóknir Hjartaverndar hafa sýnt að reglubundin hreyfing í 1-5 klst á viku bætir heilsuna verulega og lengir lífið. Hjá þeim sem hreyfa sig ekki neitt að staðaldri og fara að hreyfa sig reglulega eru áhrifin veruleg. Það er því aldrei of seint að byrja.

Hálftími á dag er aðeins 2% af sólarhringnum. Svo gefðu þér tíma.

Jákvæð áhrif hreyfingar eru ótvíræð.
Dæmi: Orkuþörf fertugs karlmanns sem vegur um 70kg og stundar kyrrsetustörf, ekur bíl til flestra sinna erinda og eyðir kvöldunum fyrir framan sjónvarp (í kyrrsetu), er í kringum 2300 kkal á dag. Hálftíma rösk dagleg ganga eykur brennslu þessa manns um 150 kkal á dag eða 55 þúsund kkal á ári. Hvert kílógramm af líkamsfitu samsvarar um 7000 kkal.
Þessi daglega aukahreyfing jafngildir 7,8 kílóum á ári
(úr bæklingi Hjartaverndar, Hreyfðu þig..fyrir hjartað).