Flúðasveppir

Georg

Flúðasveppir voru stofnaðir árið 1984. Fyrsta árið voru framleidd 500 kíló af sveppum á viku og þótti gott. Ræktunin hefur undið upp á sig með árunum og í dag eru framleidd 11 tonn á viku. Ræktaðar eru þrjár tegundir sveppa hjá Flúðasveppum, hvítir matsveppir, kastaníusveppir og portobello sveppir, en þeir eru sagðir sérstaklega góðir fyrir meltinguna.

Georg Ottósson tók við rekstri Flúðasveppa árið 2005. Hann hafði þá verið formaður Sölufélags garðyrkjumanna í nokkur ár og fannst svepparæktun spennandi verkefni.

Flúðasveppir hafa það að markmiði að bæta framleiðsluna á hverju ári og leggur mikið upp úr samvinnu við aðra bændur í héraðinu. Meðal annars framleiða Flúðasveppir eigin rotmassa sem sveppirnir eru ræktaðir í. Þá er afgangshálmi frá kornræktarbændum á Suðurlandi og skít frá kjúklingabúum í Rangárvallasýslu blandað saman við íslenskt vatn og látið molta í nokkrar vikur, áður en sveppagróum er sáð í hann. Hjá Flúðasveppum er strandreyr og korn ræktað á samtals 150 hekturum  á ökrum í Hvítárholti í Hrunamannahreppi og á Forsæti í Landeyjum, sem er notað í rotmassann.

Um 60 tonn af rotmassa verða til á viku og er hann líka nýttur til að framleiða úrvals gróðurmold (Flúðamold) til ræktunar en þá er honum blandað saman við mómold og Hekluvikur. Gróðurmoldin er til dæmis notuð þar sem fram fer lífræn ræktun.

Um 30 manns vinna hjá Flúðasveppum. Sveppirnir eru handtíndir og er um helmingur starfsfólks eingöngu að vinna við sveppatínslu. Sveppirnir eru flokkaðir í höndunum og þeim pakkað á staðnum áður en þeir eru sendir til neytenda. Svepparæktin er nákvæmnisverk úr íslensku hráefni. Bústjóri Flúðasveppa er Ævar Eyfjörð Sigurðsson.

 

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur