Léttsýrðar gúrkur
Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir
- 1 íslensk gúrka, lítil
- 5 msk hvítvínsedik
- 150 ml vatn
- 2 msk sykur
- 2 tsk salt
- Nokkur piparkorn
- 2-3 íslenskir tómatar, vel þroskaðir
- 1 lárpera, vel þroskuð
- 1/2-1 chilialdin
- Hnefafylli af kóríanderlaufi
Hér er byrjað á að léttsúrsa gúrkurnar smástund en síðan eru þær notaðar í salat með Tex-Mex-yfirbragði. Það er líka hægt að nota léttsýrðu gúrkurnar einar sér með ýmiss konar réttum.
Gúrkurnar skornar í þunnar sneiðar.
Edik, vatn, sykur, salt og piparkorn sett í pott og hitað að suðu.
Látið sjóða í 2-3 mínútur og síðan eru gúrkusneiðarnar settar út í, potturinn tekinn af hitanum og gúrkusneiðarnar látnar kólna alveg í leginum. Hrært öðru hverju.
Tómatarnir eru svo skornir í geira og lárperan afhýdd, steinninn fjarlægður og aldinkjötið skorið í teninga. Chilialdinið saxað smátt.
Tómatar, lárpera og chili sett í skál og síðan er gúrkunum blandað saman við ásamt dálitlu af leginum.
Kóríanderinn saxaður gróft og blandað saman við.
Salatið er gott eitt sér eða með ýmsum mat, t.d. soðnum og steiktum fiski eða kjúklingi.