Hreyfum okkur

Ávinningur fyrir heilsuna

Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna eins og vísindarannsóknir staðfesta. Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka meðal annars líkurnar á að fá kransæðasjúkdóma, heilablóðfall, sykursýki af tegund 2, sumar tegundir krabbameina, stoðkerfisvandamál og geðröskun. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á að fólk lifi lengur og við betri lífsgæði en annars.

Hreyfing er yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir nánast allar athafnir sem fela í sér hreyfingu með einu eða öðrum hætti, t.d. að ferðast á milli staða gangandi eða á hjóli, heimilisstörf, garðvinnu, ýmiss konar leiki, íþróttir og aðra skipulagða þjálfun.

Holdafar skiptir ekki máli. Hreyfing er okkur öllum mikilvæg sama hvernig við erum í laginu. Þó við séum grönn höfum við auðvitað ávinning af því að hreyfa okkur þrátt fyrir að þurfa ekki að létta okkur. Með daglegri hreyfingu er unnt að viðhalda og bæta líkamshreysti, svo sem afköst lungna, hjarta og æðakerfis og efla vöðvastyrk. Allt þetta stuðlar að því að fólk hefur meiri orku til að takast á við verkefni dagsins og gera það sem því finnst skemmtilegt, hreyfing hefur því mun fjölþættari þýðingu fyrir heilsu og vellíðan en einungis að viðhalda jafnvægi á milli orkuneyslu og orkunotkunar og er öllum mikilvæg óháð aldri, líkamsgetu, andlegri heilsu eða holdafari.

Vigtin er takmarkaður mælikvarði á heilbrigði. Þeir sem eru svipaðir í útliti geta verið misþungir þar sem niðurstöðutalan á vigtinni segir aðeins til um heildarþyngd líkamans. Vigtin segir lítið til um aðra þætti sem skipta ekki síður máli þegar heilbrigði er annars vegar, svo sem samsetningu líkamans (t.d. hlutfall fitu og vöðva), líkamshreysti, andlega líðan og félagslega virkni. Þannig hafa rannsóknir t.d. sýnt að fólk sem flokkast of þungt en stundar hreyfingu reglulega, getur verið heilbrigðara en grannvaxið fólk sem hreyfir sig lítið. Því er mikilvægt að hafa hugfast að það er ekki sjálfkrafa hægt að leggja að jöfnu að vera grannur og heilbrigður eða þéttvaxinn og óheilbrigður.

Ráðleggingar um magn hreyfingar:

Öll börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega. Hreyfingin ætti að vera bæði miðlungserfið og erfið. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
Fullorðnir, roskið fólk og þungaðar konur ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Heildartímanum má einnig skipta í nokkur styttri tímabil.
Dæmi um daglega hreyfingu barna og fullorðinna í samræmi við ráðleggingar
Börn

Ganga eða hjóla daglega í og úr skóla
Virk þátttaka í íþróttatímum og leikjum í frímínútum
3-4 síðdegi; frjálsir leikir eða skipulegt tómstundastarf sem felur í sér hreyfingu
Helgar: samvera með fjölskyldu og vinum sem felur í sér hreyfingu, s.s. útileikir á leiksvæði, hjólreiðar, sund og fjallganga.
Fullorðnir

Ganga eða hjóla sem oftast í og úr vinnu
Standa reglulega upp, teygja úr sér og ganga um
Nýta öll tækifæri sem gefast til hreyfingar, s.s. nota stiga í stað þess að taka lyftu
2-3 skipulagðar æfingar í viku, s.s. sameiginleg hreyfing samstarfsfélaga í hádeginu, ganga, hlaup, sund og nýta sér aðstöðu og þjónustu íþróttafélaga, heilsuræktarstöðva og ferðafélaga
Helgar: samvera með fjölskyldu og vinum sem felur í sér hreyfingu, s.s. gönguferðir, fjallganga, hjólreiðar og sund.