Gæðastefna

Það var á hádegisverðarfundi, 13. janúar árið 1940, að nokkrir garðyrkjumenn komu saman á Hótel Borg til að ræða markaðssetningu grænmetis. Nokkrum mánuðum síðar, þann 1. maí, tók Sölufélag garðyrkjumanna formlega til starfa.

Saga Sfg er samofin sögu grænmetisræktar á Íslandi. Stofnun félagsins setti ný viðmið í markaðssetningu og gæðakröfum við framleiðslu og sölu grænmetis sem hefur vaxið og þróast með hverjum áratug.

Miklar vonir voru bundnar við stofnun félagsins og árangurinn hefur ekki valdið vonbrigðum. Frá stofnun Sfg hafa þrjár kynslóðir grænmetisbænda lagt afurðir sínar inn í félagið. Með hverri kynslóð hafa komið nýjar áherslur sem Sfg hefur lagað sig að með hagsmuni bænda og neytenda í fyrirrúmi.

Fyrsta kynslóð félagsmanna plægði akurinn með áherslu á framleiðslugetu og flokkun. Íslenskir grænmetisbændur sýndu og sönnuðu að á Íslandi má rækta afbragðs grænmeti árið um kring.

Önnur kynslóð fylgdi í plógfarið með aukinni áherslu á vöruþróun, merkingar og gæðastjórnun. Um leið lagði Sfg grunninn að öflugu kynningarstarfi sem uppskorið hefur tryggð íslenskra neytenda til hagsbóta fyrir alla grænmetisbændur landsins. Nú til dags vita allir að íslenskt grænmeti stendur fyrir gæði, beint frá bónda.

Í dag hefur þriðja kynslóð grænmetisbænda tekið við og með áherslu á vistvænar lausnir í ræktun, pökkun og dreifingu. Íslenskt grænmeti sem framleitt er undir merkjum SFG er kolefnisjafnað allt frá bónda í innkaupakörfuna.

Dreifikerfi Sfg hefur gegnum tíðina þróast í átt að aukinni skilvirkni og minni matarsóun. Á seinni árum hafa fleiri aðferðir bæst í dreifikerfi félagsins með þjónustu við stóreldhús, mötuneyti og salatbari til að stuðla að fullnýtingu uppskerunnar og berjast gegn matarsóun.

Sölufélagið hefur staðið þétt við bak grænmetisbænda í baráttu við óblíða náttúru. Með hugvitið að vopni, með því að beisla jarðhita og þróa sjálfbærar leiðir í ræktun, hefur okkur tekist að snúa erfiðum aðstæðum okkur í hag. Veðurfarið sem áður reyndist stóra hindrunin í ræktun grænmetis á Íslandi vinnur með okkur á margan hátt. Lægri lofthiti  kemur í veg fyrir að skordýr fjölgi sér og gæði íslenska vatnsins eiga vart sinn líka.

Sfg á framtíðina fyrir sér og garðyrkjubændum hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem bíða þeirra á komandi áratugum.