Heilsa og lÝfstÝll

Kart÷flukynslˇ­in

Kart÷flukynslˇ­in
Þau eru mörg börnin sem hafa átt erfitt með að læra að segja orðið kartafla. Hvort sem sagt er ,,kappella”, ,,kartvafla” eða ,,kabödlur” þá er eins gott að læra rétta orðið fyrr eða síðar. Jarðeplið eins og karöflur voru kallaðar hér áður, hefur verið meginstoðin í íslenskri fæðu síðustu alda og mun vonandi vera á diskum landsmanna um ókomna tíð.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Valgerði G. Johnsen, sagnfræðingi, eru kartöflur upprunnar í Suður-Ameríku. Þær bárust til Evrópu um miðja 16. öld en kartöflurækt fór hægt af stað í Evrópu. Í þeim efnum voru Norðurlandabúar engin undantekning. Garðyrkja átti ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum sem byggðu afkomu sína á bústofni. Árið 1754 sendi Friðrik V boð til Íslands um að bændur ættu að láta sér annt um að útbúa kálgarða þar sem matjurtir gætu þrifist. Sýslumenn voru beðnir um að fylgja boði konungs eftir. Erfiðlega gekk þó að fá Íslendinga til ræktunarstarfa og konungur ítrekaði því bónina ári síðar og hafði greinilega mikinn áhuga á að efla matjurtarækt meðal þegna sinna á Íslandi. Áhugi konungs var ekki að ástæðulausu. Að meðaltali var fimmta hvert ár á Íslandi á 17. öld hungurfellisár og fjórða hvert á þeirri 18., en dreifingin var þó að sjálfsögðu misjöfn.

Kartöflur í hungursneyð
Árið 1758 uppskar Hastfer barón á Bessastöðum fyrstu ,,íslensku" kartöflurnar. Tveimur árum síðar ræktaði séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal í Barðastrandasýslu fyrstur Íslendinga jarðepli, eins og kartöflur nefndust þá. Þrátt fyrir boð yfirvalda var það ekki fyrr en í upphafi 19. aldar að garðyrkja, og þar með talin kartöflurækt, varð almenn í landinu. Íslenskum bændum var illa við að stinga upp tún sín til að rýma fyrir matjurtagörðum. Á tíu ára tímabili, frá árinu 1801 til 1810, fjölgaði matjurtagörðum í landinu úr 270 í 1.194. Görðunum fór fjölgandi alla 19. öldina. Á þeim tíma hafa Íslendingar eflaust verið farnir að gera sér grein fyrir gagnsemi og gæðum kartaflna þrátt fyrir að þær kostuðu útstungin tún. Um leið og matarskortur fór að gera vart við sig sökum styrjalda og veikinda, þurftu landsmenn að nýta sér alla möguleika til að komast lífs af.
 
Soðnar og í sparifötum
Eftir því sem ég best man úr bernsku minni voru kartöflur aldrei bornar fram öðruvísi en soðnar. Bestar voru þær mauksoðnar því þannig var auðveldast að stappa þær. Fjölbreytileikinn í kartöfluáti á mínum æskuárum fólst í að borða þær brytjaðar eða stappaðar með smjöri. Ekki má þó gleyma kartöflum í sparifötunum; brúnaðar á aðfangadagskvöld. Slíkt var algjört lostæti og þær kallaðar karmellukartöflur heima hjá mér. Eins og gefur að skilja þá var þetta áður en núðlur ruddust fram á markaðinn og fyrir pastabyltinguna. Hrísgrjón voru eingöngu notuð í grjónagrautinn.
Í dag er öldin önnur og fjölbreytileikinn í fyrirrúmi í fæðuvali. Þrátt fyrir fjölbreytileikann þá er kartöfluhefðin engu að síður ótrúlega sterk í matarvenjum okkar sem tilheyra kartöflukynslóðinni. Kartöflur eru ekki bara kartöflur. Þær eru ólíkar að tegundum, stærð og litum og því ekki sanngjarnt að tala um kartöflur sem einstakt fyrirbæri. Ein tegundin hentar betur í kartöflumús á meðan önnur á að vera betri til steikingar, sú þriðja er víst best til þess að sjóða og svo mætti lengi telja. Fyrir okkur Íslendinga sem hafa lifað á kartöflum í öll þessi ár er óhætt að fullyrða að okkur er nok sama svo framarlega sem þær séu góðar og hægt að nota þær í potta og á pönnur.


Örstuttar uppskriftir
Þar sem við búum á tímum fjölbreytileika er tilvalið að leika sér með hráefnið og prófa nýjar aðferðir við matreiðslu á kartöflum. Prófið að sjóða litlar kartöflur og fjarlægja hýðið. Hitið kartöflurnar á pönnu með nokkrum dropum af matarolíu og stráið sesamfræjum yfir þær á meðan þær hitna. Setjið kartöflurnar á fat eða í skál og skreytið þær með fetaosti og dilli. Kryddið þær með örlitlu salti.
 
Það er líka tilvalið að nota kartöflur sem millibita eða meðlæti með því að skera kartöflurnar niður, bæði hægt að skera þær endilegar í báta, sem og í litla ferninga eða þunnar sneiðar. Kryddið þær með salti og pipar og ef til vill einhverju góðu jurtakryddi. Að lokum eru þær penslaðar með matarolíu og skellt í ofninn við 200g í ca 30 – 40 mínútur eða þangað til kartöflurnar hafa fengið gulbrúnan lit.
 
Skrautjurtir framtíðarinnar
Þótt að yngri kynslóðin hafi náð að tileikna sér nýja strauma í eldamennsku þar sem pasta og hrísgrjón skipa stóran sess, þá er hefðin fyrir kartöflum ennþá það rík á meðal landans að kartöflur eru ofarlega á vinsældalistanum yfir meðlæti, bæði með kjöti og fiski.
Eldri maður sagði í fyrsta matarboðinu hjá væntanlegri tengdadóttur sinni, sem hafði staðið sveitt í eldhúsinu við að töfra fram dýrinds pastarétt: ,,Er ekki hægt að fá kartöflur með þessu?”. Orð hans eru eflaust dæmigerð fyrir viðhorf heillar kynslóðar.

Hvort sem kartöflurnar eru franskar, soðnar, steiktar, gratineraðar, músaðar niður eða ofnsteiktar, þá eru þær einfaldlega ómissandi hluti af matarmenningu kartöflukynslóðarinnar. Það verður spennandi að sjá hvort að komandi kynslóðir eigi eftir að bera kartöfluarfinn áfram eða hvort að nýir og framandi straumar í matreiðslu muni yfirtaka diskana og kartöflur verði einungis skrautjurt í matjurtargörðum framtíðarinnar.
 
Margrét V. Helgadóttir
 
Heimild: www.visindavefur.hi.isHvar og hvenær var fyrsta kartaflan ræktuð á Íslandi?
Höfundur: Valgerður G. Honsen, sagnfræðingur.
Til baka Senda ß vin

Senda ß vin

Loka