Heilsa og lÝfstÝll

GrŠnmeti­ ß diskana

GrŠnmeti­ ß diskana
Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla ávaxta og grænmetis hafi fyrirbyggjandi áhrif gegn mörgum af algengustu og alvarlegustu sjúkdómunum sem hrjá íbúa hins vestræna heims, m.a. krabbameini, hjartasjúkdómum, sykursýki og offitu.
 
Með því að innbyrða 600 grömm af grænmeti og/eða ávöxtum á dag er hægt að minnka líkurnar á ofangreindum sjúkdómum til muna. Með þá staðreynd að leiðarljósi hafa nokkur hagsmunasamtök á heilbrigðissviði í Danmörku blásið til herferð til aukinnar neyslu á grænmeti og ávöxtum undir slagorðinu: ,,Sex á dag”. Í herferðinni er gengið út frá að hver ávöxtur eða hvert grænmetisstykki, vegi u.þ.b. 100 grömm og mælst er til að hver neytandi borði 300 grömm af ávöxtum og 300 grömm af grænmeti á degi hverjum. Tekið er fram í átakinu að bæði megi borða frosið og þurrt grænmeti, og nýpressaður ávaxtadjús teljist sömuleiðis með. Nauðsynlegt er að raða fjölbreyttum ávöxtum og grænmeti á bakkann ,,Sex á dag “til að ná markmiðinu, þ.e. að ná réttri næringarsamsetningu.

Kartöflur ekki með
Teljast kartöflur til grænmetis og geta þær verið með á grænmetisbakkanum eða hvað?
Næringarfræðingarnir á bak við herferðina vilja meina að kartöflur komist ekki inn á ,,Sex á dag” bakkann. Hins vegar séu kartöflur fullar af vítamínum og bráðhollar, því sé það nauðsynlegt að hafa þær með á borðum. Vandinn er sá að kartöflur eru kolvetnisríkar og eiga heima með hrísgrjónum, pasta og brauði í næringarhringnum og því er þeim haldið utan við græna diskinn.
 
Dularfullu mótefnin
Sérfræðingum hefur tekist að finna fleiri þúsund af bætiefnum og efnasamböndum í grænmeti og ávöxtum og með neyslu þess náum við að mynda mótefni gegn fyrrgreindum sjúkdómum. Hins vegar er afar erfitt að staðsetja nákvæmlega hvaða efni það er sem myndar hvaða mótefni og gegn hverju. Sökum þess er áríðandi að borða alltaf fjölbreytta grænmetisfæðu og mikið af ávöxtum. Vítamínpillur og bætiefni í töfluformi geta ekki komið í stað grænmetis og ávaxta eins og margir hafa haldið fram.
 
Tómlegir diskar
Ef marka má þær kannanir sem gerðar hafa verið á grænmetisneyslu Íslendinga kemur glögglega í ljós að þar er hlutur grænmetis rýr í samanburði við nágrannaþjóðirnar. Niðurstöður landskönnunar á vegum Manneldisráðs Íslands sem gerð var árið 1990, sýndu fram á að Íslendingar á aldrinum 15 – 80 ára, borðuðu að meðaltali 71g af grænmeti, 137g af kartöflum og 67g af ávöxtum á dag eða samtals 275 grömm. Séu kartöflunar teknar út og einungis tekinn hlutur ávaxta og grænmetis, þá munu þetta vera 138g sem er langt frá því að vera nægilegt magn, sé miðað við tölurnar frá dönsku herferðinni ,,Sex á dag”. Að neyta meira af grænmeti og ávöxtum hefur eingöngu jákvæð áhrif á líf okkar og heilbrigði. Margir eru að kljást við aukakílóin og eitt besta ráðið í þeirri baráttu er að sleppa sykri og neyta grænmetis og ávaxta þess í stað. 
 
Blessuð aukakílóin
Offita er að verða eitt mesta heilbrigðisvandamál vestrænna ríkja. Um helmingur fólks er of þungur í Bretlandi. Í Bandaríkjunum er ástandið mun verra og það er einnig mjög slæmt víða í Austur-Evrópu. Samkvæmt könnun frá árinu 2002 eru 11-13% af dönsku þjóðinni svo mikið yfir kjörþyng að aukakílóin ógna heilbrigði þeirra. Meðalþyngd íslenskra kvenna var 65,1 kg árið 1968 en var komin upp í 73,1 kg árið 1998. Meðalþyngd íslenskra karla var 79,4 kg árið 1968 en kominn upp í 87,9 kg árið 1998. Þessar tölur sýna svo ekki verði um villst að hinar vestrænu þjóðir eru stöðugt að þyngjast og upplýsingar frá Hóprannsóknum í Hjartavernd sýna hvernig meðalþyngd Íslendinga hefur snaraukist síðastliðinn ár og þróunin er áberandi upp úr 1990.
 
Fyrirmyndarforeldrar
Þótt að það hljómi kannski kaldhæðnislega þá er offitan sá sjúkdómur sem við getum helst gripið inn í og læknað okkur sjálf áður alvarlegar aukaverkanir fara að hafa áhrif á líkamann. Offituvandamálið er margslungið, m.a. er það ákaflega menningarlegt en það sem við vitum fyrir víst er að vandinn er í það minnsta tvíþættur, annars vegar aukið hreyfingarleysi og hins vegar fæðan sem við neytum. Sykur og kolvetni eru alls ráðandi í okkar daglegu fæðu og í öllu nánasta matarumverfi.

Til að berjast á móti þeirri þróun að fylla alla skápa og hillur af kolvetni og sykri er tilvalið að hafa það að markmiði að eiga alltaf grænmeti og ávexti og helst að geyma þá í skál á eldhúsborðinu. Með því að hafa eitthvað grænt í skál fyrir framan sig, aukast líkurnar á því að þú nartir í hollustuna. Það er líka tilvalið að útbúa sér grænmetisbakka til að geyma í ísskápnum þannig að fyrirhöfnin verði minni þegar hungurtilfinningin gerir vart við sig.

Matarræði er félagslegur þáttur en hefur líka gríðarlega mikilvæg uppeldisleg áhrif. Með því að vera góðar fyrirmyndir varðandi neyslu ávaxta og grænmetis og gæta þess að slíkt sé ávallt á borðum, aukast líkurnar á að börnin á heimilinu velji hollustuna fram yfir sykurinn þegar fram í sækir. Þannig getum við sem foreldrar í dag orðið góðar fyrirmyndir og snúið þyngdarþróuninni við í gegnum næstu kynslóðir.
 
Margrét V. Helgadóttir
 
Heimilidir:
www.doktor.isÁvinningur af neyslu grænmetis og ávaxta.
Höfundur: Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur og forstöðumaður Manneldisstöðvar.
 
www.doktor.is Offita – taktu hana alvarlega. Grein unnin upp úr bæklingi, útgefinn af Hjartavernd 2. prentun 2002.
Höfundur: Jórunn Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
 
Til baka Senda ß vin

Senda ß vin

Loka