Pétursey
Hrönn og Bergur

Pétursey er 274 metra hátt móbergsfjall sem stendur austan við Sólheimasand í Mýrdal. Nokkrir bæir standa í nágrenni við fjallið, einn þeirra er Vestri-Pétursey þar sem Bergur Elíasson og Hrönn Lárusdóttir búa. Þar hafa þau ræktað gulrætur í um þrjátíu ár.
„Jarðvegurinn er mjög góður fyrir gulrótarækt, sendinn og næringarríkur. Gulræturnar okkar eru mjög bragðgóðar, þó þær séu ekki allar fallegar í laginu. Skýringin á löguninni er að í jarðveginum leynast steinvölur, sem hafa áhrif á vöxtinn“, segir Bergur Elíasson bóndi í Vestri-Pétursey. Þau Bergur og Hrönn búa einnig með kýr og eru með ferðaþjónustu.
Péturseyjarjarðir voru í landnámi Loðmundar gamla á Sólheimum. Jörðin gekk lengst af undir nafninu Ey og fjallið nefnt Eyjan há. Kirkja var lengi á jörðinni og líklega var farið að kalla fjallið Pétursey þar sem kirkjan var helguð Pétri postula. Péturseyjarjarðir hafa alla tíð verið bændaeign og þar hefur verið margbýlt.
Bergur er uppalinn í Vestri-Pétursey og fjölskylda hans búið á jörðinni frá 1806. Þau Bergur og Hrönn tóku við búi í Vestri-Pétursey árið 1987 en áður bjuggu þau í félagi við bróður Bergs og eiginkonu hans.
Mikil vinna er við gulrótarræktina vor og haust. Sum árin er uppskera góð en svo getur hún brugðist ef tíðin er slæm. Þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010 lagðist aska yfir alla garða og gerði það að verkum að nær engin uppskera varð. Í meðalári er ársframleiðslan um 45 tonn.




