Melar

Helga og Guðjón

Sigríður Helga Karlsdóttir og Guðjón Birgisson byggðu fyrsta gróðurhúsið á Melum á Flúðum í Hrunamannareppi árið 1980 og hafa ræktað þar grænmeti síðan. Bæði Guðjón og Helga eru alin upp við garðyrkju og grænmetisrækt en Guðjón kynntist grænmetisræktun í Garði í sömu sveit, þangað sem hann fór í vist á hverju sumri frá 12 ára aldri. Helga er alin upp á garðyrkjustöðinni Varmalæk.

Í dag rækta þau allt árið um kring í hágæða gróðurhúsum þar sem nýjustu tækni er beitt tómata, gúrkur og papriku. Á Melum eru ræktaðar 3 tegundir af tómötum, þessir hefðbundnu sem allir þekkja, litlir heilsutómatar auk gulra kirsuberjatómata. Heilsutómatarnir hafa löngum verið sérstaða á Melum og eru bragðmeiri hollari en gömlu góðu hefðbundnu tómatarnir. Í þeim er þrefalt meira magn af andoxunarefninu lýkópen sem rannsóknir benda til að hjálpi við að veita vörn gegn hjartasjúkdómum og krabbameini. Samtals er ræktað í 5000 fermetrum af upphituðum gróðurhúsum og er framleiðslan rúmlega 400 tonn á ári.

Auk gróðurhúsaræktarinnar er líka útirækt á Melum. Þar er ræktað kínakál, blómkál, brokkólí, salat, hnúðkál og fleiri tegundir. Gæði og ferskleiki eru höfð í fyrirrúmi á Melum. Þannig er öllu grænmeti handplantað og það síðan handtínt, skorið, og sérvalið í neytendapakkningar. Frá Melum fara daglega sendingar sem berast neytendum samdægurs.

Ræktunin á Melum er náttúruvæn sem felur í sér að býflugur sjá um að frjóvga plönturnar.  Engin eiturefni eru notuð við ræktun, heldur er lífrænum vörnum beitt í baráttu við meindýr. Græn orka er í fyrirrúmi og náttúrulegar auðlindir notaðar við garðyrkjuna. Grænmetið er vökvað með neysluvatni því sama og íbúarnir í Hrunamannahreppi drekka. Gróðurhúsin eru hituð upp með heitu vatni sem nóg er af í jörðu. Þá kemur kolsýran sem nauðsynleg er við ræktunina einnig úr jörðu og rafmagnið úr fallvötnum.

Garðyrkjubændurnir á Melum eru stoltir ræktendur og hafa í mörg ár verið með sölustand fyrir grænmetið sitt fyrir utan gróðurhúsin. Nýlega hafa þau fært út kvíarnar og sett upp á staðnum verslun sem heitir Litla Bændabúðin en hét áður Litla Melabúðin. Þar er til sölu ferskt grænmeti og kryddjurtir frá Melum en einnig allskyns matvara frá öðrum bændum úr héraðinu.

Staðsetning: Flúðir
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur