Sj÷fn og Ůorleifur

Þorleifur Jóhannesson býr ásamt konu sinni, Sjöfn Sigurðardóttur, á Hverabakka II á Flúðum. Þar reka þau garðyrkjustöðina Gróður ehf. og stunda fjölbreytta ræktun en hjá Gróðri ehf. eru ræktaðir tómatar, kirsuberjatómatar og gúrkur á 4000 fermetrum í gróðurhúsum. Eins er stunduð útirækt á staðnum og ræktað kínakál, spergilkál, blómkál, sellerí og rófur á um 15 hekturum lands. Gróður ehf. er jafnframt eini framleiðandinn innan Sölufélags garðyrkjumanna sem ræktar sellerí.

Garðyrkja hefur verið stunduð á Hverabakka nánast óslitið frá árinu 1944. Faðir Sjafnar stofnaði Gróður ehf.  og keyptu Þorleifur og Sjöfn stöðina af honum. Þorleifur segir það þó ekki hafa verið ætlunina að gerast garðyrkjubóndi. Þau hjónin eru bæði menntaðir kennarar og vinnur Sjöfn við kennslu á Flúðum. Þorleifur sér þó ekki eftir því að hafa farið út í garðyrkju og segir starfið sérstaklega gefandi og skemmtilegt og honum leiðist aldrei í vinnunni.

Á staðnum vinna um 6 manns á veturna en á sumrin fjölgar allt upp í 15 manns.

Allt grænmetið hjá Gróðri ehf. er handtínt, hreinsað og flokkað á staðnum. Sendingar fara daglega frá garðyrkjustöðinni til neytenda en tómatarnir eru tíndir þrisvar sinnum í viku og gúrkurnar daglega. Ræktunin er vistvæn, tómatarnir og gúrkurnar eru ræktaðar í vikri, lífrænum vörnum er beitt og sjá býflugur um að frjóvga plönturnar. Hluti útiræktunarinnar fer fram í heitum jarðvegi frá náttúrunnar hendi og er jarðhiti einnig nýttur til upphitunar í gróðurhúsunum. Heita vatnið kemur úr Grafarbakkahver sem liggur við húshornið á Hverabakka en garðyrkjustöðin stendur á bökkum Litlu-Laxár.


Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka