Gulrótabuff

Með timían og kóriander

Höfundur: Nanna Rögnvaldardóttir

Innihaldslýsing:
  • 500 g íslenskar gulrætur
  • 300 g íslenskar kartöflur
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 egg
  • 1-2 vorlaukar, saxaðir smátt
  • 1 msk ferskt timían, saxað (einnig má nota basiliku)
  • 1/2 tsk möluð kóríanderfræ
  • Nýmalaður pipar
  • Salt
  • Hveiti eftir þörfum
  • Olía til steikingar
Leiðbeiningar:

Kartöflurnar soðnar þar til þær eru meyrar og á meðan eru gulræturnar rifnar fremur gróft.

Kartöflurnar afhýddar og stappaðar með olíunni. Eggi, vorlauk, timían og kóríander hrært saman við. kryddað nokkuð vel með pipar og salti, og síðan er rifnu gulrótunum blandað saman við.

Nokkrum matskeiðum af hveiti hrært saman við, blandan á að vera svo þykk að hægt sé að móta buff úr henni með blautum höndum, en alls ekki of stíf.

Olía hituð á stórri pönnu og hveiti stráð á disk.

Um 2 cm þykk buff mótuð úr stöppunni, þeim velt upp úr hveiti og þau síðan steikt við meðalhita í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þau hafa tekið góðan lit.

Borin fram með grænu salati og e.t.v. öðru grænmeti.