Varmaland

Sveinn

Garðyrkjustöðin Varmaland í Borgarfirði var byggð árið 1938 á landi sem sem áður tilheyrði Reykholti og er því með elstu garðyrkjustöðvum á landinu. Sveinn Björnsson sem nú  rekur garðyrkjustöðina ólst upp á Varmalandi. Sveinn kom inn í rekstur garðyrkjustöðvarinnar árið 1964 og tók alfarið við af föður sínum árið 1973.

Sveinn hóf uppbyggingu og endurnýjun á gróðurhúsum árið 1979.  Þau þekja nú um 2060 fermetra lands. Á Varmalandi eru eingöngu ræktaðir tómatar og er ársframleiðslan um það bil 60 tonn. Tómatarnir eru ræktaðir í jarðvegi, þeim er sáð í desember og eru hafðir undir lýsingu fram í febrúar. Uppskeran hefst um miðjan apríl og eru tómatar tíndir út nóvember. Eftir það er allt hreinsað út úr gróðurhúsunum og þau sótthreinsuð áður en sáð er á ný. Ræktunin í Varmalandi er vistvæn þar sem býflugur sjá um að frjóvga plönturnar og lífrænum vörnum beitt.

Tómatarnir eru tíndir þrisvar í viku og þeim pakkað á staðnum. Sendingar fara  tvisvar í viku frá garðyrkjustöðinni til neytenda. Gróðurhúsin eru hituð upp með jarðhita úr borholu sem var tekin í notkun 1974. Garðyrkjustöðin er í nágrenni við tvo sögufræga hveri, Skriflu og Dynk.  Heitt vatn frá hverunum hefur verið nýtt á staðnum öldum saman en við fornleifauppgröft hafa fundist veitustokkar út frá Skriflu sem grafnir voru á miðöldum.

Staðsetning: Borgarfjörður
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur